Ferðasögur - SCI

Ferðasögur

Hér má finna ferðasögur frá einstaklingum sem farið hafa í SCI vinnubúðir erlendis fyrir milligöngu SEEDS.
Ef þú hefur farið í slíka ferð og vilt deila reynslu þinni með öðrum sendu okkur þá ferðasöguna þína á outgoing@seeds.is.

Ef þú hefur áhuga á að ferðast, kynnast nýju fólki, nýrri menningu og láta gott af þér leiða skoðaðu þá SCI leitarvélina.


Urður Ýrr Brynjólfsdóttir, fór í SCI vinnubúðir bæði í Hong Kong og Indónesíu árið 2013:

 

 

 

"Ég tók þá skyndiákvörðun að fara til útlanda eftir að ég útskrifaðist úr framhaldskóla. Ég var svo heppin að hafa heyrt af SEEDS frá kunningjanum mínum því þar fann ég eitthvað sem hentaði mér fullkomlega. Verkefnið var í Hong Kong og fjallaði um Cultural Diversity eða fjölbreytilega menningu á milli landa. Ég sendi inn fyrirspurn og fékk fljótt svar frá Sonju. Hún hjálpaði mér með þetta allt saman og stuttu seinna átti ég bókað flug til Hong Kong.

Ég var í bréfasambandi við nokkra sjálfboðaliðana úr samtökunum í Hong Kong áður en ég lagði af stað og hafði því einhverja hugmynd um það hverjum ég myndi vera að vinna með. Þegar að ég lenti þar var einn leiðtoganna kominn á flugvöllinn til þess að taka á móti mér og fara með mig á hostelið þar sem við áttum eftir að búa næstu þrjár vikurnar. Í fyrstu vikunni fékk ég að kynnast öllum hinum sjálfboðaliðunum og við skoðuðum okkur vel um Hong Kong, en þá var kínverskt nýár og mikið um að vera. Við vorum um 10 sjálfboðaliðar frá ýmsum stöðum í Evrópu, flest allar stelpur.

Í seinni vikunni bættust við aðrir 10 sjálfboðaliðar frá nálægari ríkjum. Þá byrjuðum við að fara í skólana og gera ýmis verkefni í samstarfi við krakkana. Vinsælast var verkefni sem krakkarnir kölluðu Human Library eða mennskt bókasafn. Hvert land var með sína stöð og krakkarnir gátu valið sér eina stöð til þess að sitja við og fræðast um landið í einhvern ákveðinn tíma. Önnur verkefni sem við gerðum var að ræða við krakka um umhverfismál, endurvinnslu, fátækt og allskonar fleirra, bæði almennt og svo það sem var sérstætt við landið okkar. Í verkefninu fóru krakkarnir stundum með okkur um borgina og sýndu okkur allt það helsta og ýmis svæði sem túristar myndu aldrei fara á sjálfir og þannig fengum við mun dýpri innsýn inn í borgina en ef við hefðum bara verið að ferðast.

Þegar að það var stutt eftir af þessu verkefni ákvað ég að mig langaði til þess að gera meira svona lagað og leit þá aftur á síðuna. Í þetta sinn fann ég áhugavert verkefni í munaðarleysingjahæli í Indónesíu. Verkefnið var álíka en umhverfið allt öðru vísi. Ég senti þá aftur inn fyrirspurn og Sonja hjálpaði mig aftur og gerði nánast allt fyrir mig sem gera þurfti og gaf mér meira að segja afslátt af staðfestingargjaldinu. Það var lítið mál að fá pláss þar og flug og stuttu seinna var ég lögð af stað eina ferðina enn. Ég var líka í örlitlu bréfasambandi við sjálfboðaliðana í þessu verkefni stuttu áður en að ég lagði af stað. Þegar að ég lenti var einn leiðtoginn kominn til þess að taka á móti mér. Hann var mjög hjálpsamur og bauðst til þess að keyra mig á rafmagnshjólinu sínu upp að sjálfboðaliðahúsinu. Ég ákvað að láta það eftir mér, þótt að ég sæi áhyggjusvipi minna nákomnu fyrir sjónu mér, enda er það hvernig flestir komast á milli staða þarna.

Aðstæðurnar hérna voru allt öðru vísi. Í Hong Kong gistum við í hosteli með rúmum, sængum, sængurverum, asískum klósettum og sturtum eins og heima (þótt að þær voru stundum kaldar). Í Indónesíu gistum við á munaðarleysingjahæli sem var líka múslimksur heimavistaskóli ásamt fullt af krökkum á öllum aldri. Þar sváfum við einfaldlega bara á gólfinu í svefnpoka og gátum notast við klósettaðstöðuna sem var lítið asískt klósett og “sturta”, ef það má kalla það sturtu, sameinað innan í pínulitlum bás. Eldhúsaðstæðurnar voru líka ágætar í Hong Kong en alveg hreint sjokkerandi í Indónesíu. Þess vegna er mikilvægt að vera duglegur að þvo sig um hendurnar og reyna að vera ekki of hræddur við sýkla, já, eða pöddur. Á morgnana og kvöldin þá eyddum við tíma með krökkunum í munaðarleysingjahælinu en á daginn, þegar að þau voru í skólanum, þá heimsóttum við líka ýmsa skóla og kynntum okkur og heimkynni okkar, ásamt því að fara í leiki með krökkunum. Það var alltaf ótrúlega gaman og krakkarnir fylgdust vel með og voru áhugasamir.

Það var eins í Indónesíu að maður fékk að upplifa landið allt öðru vísi en ferðamaður sem fer þar í gegn. Við fengum að lifa alveg eins og krakkarnir, án flestra nútímaþæginda og virkilega sjá hvernig það er. Miðað við lýsinguna þá hljómar þetta kannski ekki mjög geðslegt, en mér fannst satt að segja mun skemmtilegri lifnaðaraðstaðan í Indónesíu en í Hong Kong. Það að sofa á gólfinu gat verið óþæginlegt til að byrja með en bráðlega fannst mér ekkert eðlilegra. Við lögðumst oft inn í herbergið þegar að það verður heitast á daginn, enda var eina viftan þar inni, og sofnuðum nánast um leið. Ég lærði líka að elska sturturnar mjög fljótt. Það var fátt sem ég elskaði meira en að koma heim eftir heitann dag og fá að skella smá köldu vatni yfir hausinn.

Ég fékk að upplifa svo margt skemmtilegt á dvölinni minni og auk þess tel ég mig vera orðin mun sjálfstæðari, en það getur tekið mikið á að þurfa að ferðast svona ein. Eftir verkefnin skellti ég mér meira að segja líka til Tælands og Filippseyja og skemmti mér stórkostlega! Ég mæli endregið með þessu fyrir alla þá sem vilja ferðast, upplifa nýja hluti, kynnast nýju fólki og láta gott af sér leiða í leiðinni. Þetta var án efa eitt af stórkostlegustu ákvörðunum sem ég hef nokkurntíman tekið og ég vonast til þess að fá tækifæri til þess að gera eitthvað svona aftur og þá helst bráðlega."


Áslaug Inga Kristinsdóttir, fór í SCI vinnubúðir til Bátonyterenye í Ungverjalandi 2012:

"Ég tók þá skyndiákvörðun að sækja um vinnubúðir í Ungverjalandi og er svo ánægð með að hafa tekið þátt í þessu ævintýri. Staðurinn sem ég vann á var Taóískt samfélag í sveitasetri langt frá allri byggð. Þar hjálpuðum við staðnum við að betrumbæta umhverfið á daginn og lærðum svo Kung Fu á hverju kvöldi!

Ég eignaðist góða vini og á svo margar magnaðar minningar frá þessum vinnubúðum. Við fengum grænmetisfæði allan tímann og ég notaði tækifærið og fór að stunda hugleiðslu, eitthvað sem ég geri enn í dag. Ég er svo ánægð með að hafa getið gefið frá mér til staðarins.

Þetta var svo þroskandi reynsla og ég ætla pottþétt að taka þátt í fleiri verkefnum með SEEDS."